Erlent

Helsti ráðgjafi Trump vísar ósætti innan eigin raða á bug

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá ósætti á meðal starfsmanna framboðs Trump.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá ósætti á meðal starfsmanna framboðs Trump. Vísir/Getty
Helsti ráðgjafi Donald Trump, forsetaefnis Repúblikana, hafnar því alfarið að ósætti sé innan raða starfsmanna framboðs auðkýfingsins umdeilda.

„Við erum í góðum málum, við erum skipulögð og við höldum áfram,“ sagði Paul Manafort í viðtali við fréttastofu Fox. Trump þykir hafa stigið feilspor með því að gagnrýna foreldra Humayun Khan, hermanns sem lést í Írak árið 2004. Foreldrar hans ávörpuðu flokksþing Demókrata og gagnrýndu Trump harkalega.

Hafa bandarískir fjölmiðlar greint frá því að orð Trump í garð foreldra Khan hafi fallið í grýttan jarðveg á meðal starfsmanna framboðs Trump og lét einn starfsmaður hafa eftir sér við CNN að þeim fyndist mörgum eins og þeir væru að kasta tíma sínum á glæ með því að starfa fyrir Trump.

Þá greindi NBC frá því að háttsettir menn innan Repúblikanaflokksins ætluðu sér að blanda sér í kosningabaráttu Trump með því að krefjast þess að hann myndi einbeita sér að því að tala um málefin.

Manafort blés á þetta og sagði að þessar fregnir væri runnar undir rifjum Hillary Clinton, forsetaefnis Demókrata og sagði hann að hún bæri ábyrgð á því að dreifa fregnum um ósætti meðal starfsmanna Trump.

Trump blés einnig á slíkar fréttir og tísti í dag um að sjaldan hefði krafturinn verið jafnmikill meðal starfsmanna sinna.


Tengdar fréttir

Hver var Humayun Khan?

Bandarískur hermaður sem fórst í sprengingu í Írak 2004 hefur óvænt orðið að leikanda í kosningabaráttunni vestra.

Trump segir Obama hreina hörmung

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, segir valdatíð Baracks Obama Bandaríkjaforseta hafa verið hreina hörmung og í raun versta forseta í sögu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×