Íslenski boltinn

Færeyskur landsliðsmaður í FH

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kaj Leo og Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, handsala samninginn.
Kaj Leo og Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, handsala samninginn. mynd/fh.is
Íslandsmeistarar FH hafa gert samning við færeyska landsliðsmanninn Kaj Leo í Bartalsstovu um að leika með liðinu út tímabilið.

Kaj Leo, sem er 25 ára, lék síðast með Dianamo București í Rúmeníu. Hann er uppalinn hjá Víkingi í Götu en hefur einnig leikið með Levanger í Noregi.

Kaj Leo getur bæði leikið sem kantmaður og framarlega á miðjunni. Hann hefur leikið níu A-landsleiki fyrir Færeyjar.

„Við FH-ingar erum mjög ánægðir að fá til okkar Kaj Leo í Bartalsstovu. Kaj er leikmaður sem mun gefa okkur nýja vídd í sóknarleik,“ er haft eftir Heimi Guðjónssyni, þjálfara FH, á heimasíðu félagsins.

Þrír Færeyingar eru nú á mála hjá FH. Gunnar Nielsen er aðalmarkvörður liðsins og þá er varnarmaðurinn Sonni Ragnar Nattestad einnig samningsbundinn FH en hann var lánaður til Fylkis í gær.

FH situr á toppnum í Pepsi-deild karla. Næsti leikur liðsins er gegn ÍA á Akranesi á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×