Erlent

Ekkert komið fram sem bendir til þess að Íslendingar hafi lent í árásinni í Nice

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi árásarinnar í Nice í gær.
Frá vettvangi árásarinnar í Nice í gær. vísir/getty
Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að Íslendingar hafi lent í árásinni í Nice í gærkvöldi. Þetta segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Borgin er fjölfarinn ferðamannastaður og hafa þeir fjölmörgu Íslendingar sem eru á svæðinu í sumarleyfum verið duglegir að láta vita af sér. Hvetur utanríkisráðuneytið alla sem ekki hafa látið aðstandendur vita af sér að gera það hið fyrsta.

Borgaraþjónustan er í beinu sambandi við neyðarteymi frönsku stjórnsýslunnar, sem sett er á fót við atburði sem þessa, og tekur saman upplýsingar um fórnarlömb árásarinnar. Þar hefur ekkert komið fram sem bendir til að Íslendingar lentu í árásinni. Þá hefur borgaraþjónustan verið í sambandi við Íslendinga sem vitað er að búsettir eru á svæðinu. Sem fyrr hafa samfélagsmiðlar reynst afar öflugur miðill fyrir fólk á svæðinu að láta vita af sér.

Utanríkisráðuneytið hvetur alla Íslendinga sem eru á svæðinu að fylgjast vel með tilmælum yfirvalda á staðnum. Sem stendur er fólk beðið um að vera ekki að vera á ferli að óþörfu og halda sig á öruggum stöðum.

Ef aðstandendur á Íslandi hafa ekki heyrt frá fólk sem vitað er að eru á svæðinu eru þeir hvattir til að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma 5459900,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Að minnsta kosti 84 létust í árásinni í gærkvöldi þegar vörubíl var ekið inn í mannþröng í miðborg Nice þar sem fjöldi fólks var samankominn vegna hátíðahalda í tilefni þjóðhátíðardags Frakka. Þá eru átján manns alvarlega slasaðir á gjörgæslu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×