Sport

Klitschko: Fury hljómaði eins og Hitler

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klitschko og Fury mætast í hringnum 9. júlí í Manchester.
Klitschko og Fury mætast í hringnum 9. júlí í Manchester. vísir/epa
Það eru litlir kærleikar á milli hnefaleikakappanna Tyson Fury og Wladimir Klitschko. Nú síðast gekk Úkraínumaðurinn svo langt að líkja Fury við sjálfan Adolf Hitler.

Fury er umdeildur maður og í síðasta mánuði þurfti hann að biðjast afsökunar á niðrandi ummælum sem hann lét falla um samkynhneigða, konur og gyðinga.

„Þegar hann fór að tala um gyðingana hljómaði hann eins og Hitler,“ sagði Klitschko sem tapaði fyrir Fury í Düsseldorf í Þýskalandi í nóvember á síðasta ári. Þetta var fyrsta tap Úkraínumannsins í 11 ár.

Klitschko og Fury mætast aftur í hringnum í Manchester 9. júlí næstkomandi en þar gefst þeim fyrrnefnda tækifæri til að hefna fyrir ófarirnar frá því í fyrra.

„Við getum ekki haft svona meistara. Það verður að þagga niður í honum innan eða utan hringsins, eða setja hann bara í bann, því það er ekki hægt að búa til meira hatur,“ sagði hinn fertugi Klitschko.

„Ég er að fara að berjast við mann sem getur ekki haldið sér saman þegar kemur að ákveðnum málefnum.“

Fury, sem er 27 ára gamall Englendingur, er ósigraður í 25 bardögum á ferlinum.

Box

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×