Innlent

Guðni Th. Jóhannesson er nýr forseti Íslands

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Nýr forseti ásamt eiginkonu sinni, Elizu Reid.
Nýr forseti ásamt eiginkonu sinni, Elizu Reid. vísir/halla
Guðni Th. Jóhannesson er nýr forseti Íslands. Þegar lokatölur liggja fyrir í fimm kjördæmum af sex er Guðni með rúmlega tíu prósenta forskot á Höllu Tómasdóttur.

Kjörstjórn fámennasta kjördæmisins, það er Norðvesturkjördæmis, hefur enn ekki skilað lokatölum. Samkvæmt nýjustu tölum, sem fengnar eru af vefsíðu RÚV, munar um 20.000 atkvæðum á Guðna og Höllu. Á kjörskrá í norðvestur eru 21.424 og því enginn tölfræðilegur möguleiki á því að Halla nái Guðna.

Það er ekki búið að telja öll atkvæði en ég held að sigurinn sé í höfn,“ sagði Guðni Th. á kosningavöku sinni rétt eftir miðnætti skömmu eftir að fyrstu tölur lágu fyrir í öllum kjördæmum. Hinn nýji forseti fagnar 48 ára afmæli í dag.

Andri Snær Magnason, rithöfundur, endar að öllum líkindum í þriðja sæti en hann hefur hlotið 14,2 prósent atkvæða. Á hæla hans fylgir Davíð Oddsson, ritstjóri, með 13,7 prósent. Sturla Jónsson hlaut 3,5 prósent.

Útlit er fyrir að fjórir frambjóðendur fái færri en 1.500 atkvæði en til að geta boðið sig fram þurfa frambjóðendur að safna undirskriftum 1.500 kosningabærra manna. Næst fjórmenninganna að ná 1.500 atkvæðum komst Elísabet Jökulsdóttir en þegar þetta er ritað hefur hún hlotið 1.218 atkvæði. Ástþór Magnússon, Guðrún Margrét Pálsdóttir og Hildur Þórðardóttir ná saman ekki einu prósenti þó atkvæði þeirra séu lögð saman.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×