Fótbolti

Kári: Vissum alltaf hvar Ronaldo var

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári í leiknum í kvöld.
Kári í leiknum í kvöld. vísir/getty
Kári Árnason, miðvörður Íslands, var ánægður með stig gegn Portúgal í leik liðanna á EM i Frakklandi. Kári hrósaði sérstaklega Hannesi Þór Halldórssyni, markverði, en hann átti afbragðs leik.

„Þetta var helvíti erfiður fyrri hálfleikur. Þeir fengu færi til að skora, en Hannes bjargaði okkur í skallanum hjá Nani. Hannes var frábær í dag, ég ætla bara að taka það fram," sagði Kári við fjölmiðlamenn.

„Í síðari hálfleik vorum við bara með þetta undir control. Þeir voru ekkert að hóta okkur, en þetta eru frábærir leikmenn og allt það."

Mark Íslands í upphafi síðari hálfleiks virtist slá Portúgalana aðeins út af laginu.

„Við sögðum fyrir leikinn að við ætluðum að halda okkur við okkar fótbolta þrátt fyrir að þeir myndu skora, en ekki að fara elta leikinn og fá þá annað í bakið."

„Við héldum okkur við það plan og skoruðum snemma í síðari hálfleik. Við hefðum alveg getað stolið þessu."

Kári og Ragnar náðu mjög vel saman í miðri vörninni og menn eins og Cristiano Ronaldo sáust ekki löngum tímum saman.

„Eins og við höfum sýnt þá er það hægara sagt en gert að skora á móti okkur. Þetta var ódýrt mark sem við fengum á okkur og þeir komust upp auðveldlega hægra megin hjá sér."

„Ég veit ekki hvort það hafi verið rétt ákvörðun hjá mér að hlaupa út, en mér finnst eins og ég varð að gera. Þetta var "split-second" ákvörðun og ég held að ég geti komið í veg fyrir fyrirgjöfina."

„Þar af leiðandi skil ég einn eftir inn í teiginn og við náum ekki færslunni yfir. Þetta er svona tappinn. Fyrir utan það og skallann þá er þetta fáir sénsar sem við fáum á okkur."

Hvernig fannst Kára ganga að hemja stórstjörnuna, Ronaldo, í kvöld?

„Við erum nátturlega með frábært samstarf ég og Raggi. Við tölum mikið saman og við vissum allan tímann hvar hann var. Hann er nátturlega stórhættulegur inn í teig, en það var komið í veg fyrir flesta krossa og við dekkuðum hann svo bara í teignum," sagði Kári að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×