Fótbolti

Þjálfari Ungverjalands: Strákarnir mínir áttu þetta skilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bernd Storck, þjálfari Ungverja og lærisveinar hans fagna.
Bernd Storck, þjálfari Ungverja og lærisveinar hans fagna. Vísir/EPA
Bernd Storck, hinn þýski þjálfari Ungverjalands, var stoltur af sínu liði eftir að Ungverjar jöfnuðu metin seint í leiknum gegn Íslandi í dag.

„Við erum komnir með fjögur stig eftir að hafa náð þessu jöfnunarmarki og það áttum við skilið. Við stjórnuðum leiknum og reyndum að spila fótbolta,“ sagði Storck.

Hann vildi ekki gagnrýna íslenska liðið og hrósaði því mikið. „Ísland varðist mjög vel en við náðum ekki að ógna þeim nógu mikið. En við misstum aldrei trúna og áttum þetta stig meira en skilið.“

Storck vildi ekki tjá sigum vítaspyrnudóminn í dag. „Ég sá þetta alls ekki og hef ekki áhuga á dóminum. Við sjáum til hvernig hinn leikurinn í riðlinum fer í kvöld og þá munum við sjá hvar við stöndum.“

Hann segist stoltur af sínu liði. „Við vorum að spila við mjög sterkan andstæðing en mínir menn hafa tekið miklum framförum og eiga skilið að vera í þeirri stöðu sem þeir eru í.“

„Það var ekki einfalt að ná þessum úrslitum enda að spila gegn mjög sterku íslensku liði. Það eru margir þaulreyndir leikmenn í því. Ísland er í hæsta gæðaflokki í alþjóðlegri knattspyrnu og því má ekki gleyma.“

Hann segir að Ungverjar hafi reynt allt til að sækja jöfnunarmarkið. „Við fórnuðum varnarmanni til að setja sterkan skallamann í sóknina og það gekk eftir. Ég veit að gleðin er mikil í Ungverjalandi og það eiga strákarnir mínir skilið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×