Fótbolti

Telja að Ögmundur byrji fyrsta leik á EM frekar en Hannes Þór

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ögmundur Kristinsson hefur byrjað marga leiki síðan undankeppninni lauk.
Ögmundur Kristinsson hefur byrjað marga leiki síðan undankeppninni lauk. vísir/getty
Samkvæmt UEFA.com verður Ögmundur Kristinsson, markvörður Hammarby, í markinu hjá íslenska landsliðinu þegar það mætir Portúgal í fyrsta leik á Evrópumótinu í fótbolta 14. júní.

Í grein á vef evrópska knattspyrnusambandsins er líklegum byrjunarliðum allra 24 þjóðanna sem taka þátt á EM stillt upp og þar er Ögmundur í markinu en ekki Hannes Þór Halldórsson.

Hannes meiddist í september á síðasta ári og missti af lokaleik Íslands í undankeppninni. Ögmundur hefur staðið vaktina í markinu nánast undantekningarlaust síðan þá. Ögmundur byrjaði nú síðasta vináttuleikinn gegn Norðmönnum sem tapaðist, 3-2.

Hannes Þór er fyrir löngu orðinn heill af meiðslum sínum og byrjaður að spila með Bodö/Glimt í Noregi auk þess sem hann kom inn á í sínum fyrsta landsleik í hálft ár í mars þegar hélt hreinu sínar 45 mínútur gegn Grikklandi ytra.

Fátt annað í uppstillingu íslenska liðsins kemur á óvart. Margir hafa velt fyrir sér hver byrjar við hlið Kolbeins Sigþórssonar í framlínunni en samkvæmt UEFA.com verður það Alfreð Finnbogason sem raðaði inn mörkum seinni hluta tímabils fyrir Augsburg í Þýskalandi.

Byrjunarliðið samkvæmt UEFA.com: Ögmundur Kristinsson; Birkir Már Sævarsson, Ari Freyr Skúlason, Ragnar Sigurðsson, Kári Árnason, Ari Freyr Skúlason; Jóhann Berg Guðmundsson, Gylfi Þór Sigurðson, Aron Einar Gunnarson, Birkir Bjarnason; Kolbeinn Sigþórsson, Alfreð Finnbogason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×