Fótbolti

Austurríkismenn töpuðu í general-prufunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Austurríki, sem mætir Íslandi á EM í Frakklandi 22. júní næstkomandi, tapaði 0-2 fyrir Hollandi í síðasta vináttulandsleik sínum fyrir EM í kvöld.

Hollendingar komust sem kunnugt er ekki á EM en þeir voru með Íslendingum í riðli í undankeppninni.

Vincent Janssen og Georginio Wijnaldum skoruðu mörk Hollands á Ernst-Happel vellinum í Vín í kvöld en Hollendingar hafa unnið þrjá af síðustu fjórum vináttulandsleikjum sínum.

Austurríkismenn hafa aftur á móti tapað þremur af fimm vináttulandsleikjum sínum frá því undankeppni EM lauk síðasta haust.

Frakkar, gestgjafarnir á EM, kláruðu Skota í fyrri hálfleik í leik liðanna í Metz í kvöld.

Olivier Giroud skoraði tvö mörk í 3-0 sigri Frakklands og samherji hans hjá Arsenal, Laurent Koscielny, bætti þriðja markinu við.

Frakkar hafa unnið síðustu fjóra leiki sína og eru líklegir til afreka á heimavelli í sumar.

Þá gerðu Slóvakar og Norður-Írar markalaust jafntefli í Trnava og Króatar slátruðu San Marinó, 10-0. Mario Mandzukic og Nikola Kalinic skoruðu báðir þrennu í leiknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×