Enski boltinn

Hodgson: Rétt ákvörðun að velja Rashford í hópinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rashford spilaði vel í bikarúrslitaleiknum gegn Crystal Palace áður en hann fór meiddur af velli í seinni hálfleik.
Rashford spilaði vel í bikarúrslitaleiknum gegn Crystal Palace áður en hann fór meiddur af velli í seinni hálfleik. vísir/getty
Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, segir að Marcus Rashford, framherji Manchester United, búi yfir gríðarlega miklum hæfileikum en hafi ekki mikinn tíma til að sýna sig og sanna fyrir EM í Frakklandi sem hefst í næsta mánuði.

Rashford, sem er 18 ára, sló í gegn með United á seinni hluta tímabilsins þar sem hann skoraði átta mörk í 18 leikjum. Framherjinn efnilegi var svo verðlaunaður fyrir frammistöðuna með sæti í 26 manna leikmannahópi Englands fyrir EM. Hann leikur væntanlega sinn fyrsta landsleik þegar England mætir Ástralíu á Ljósvangi í Sunderland á föstudaginn.

„Ég er handviss um að það hafi verið rétt að velja hann í þennan stóra hóp. En hins vegar er mikil samkeppni um framherjastöðurnar í hópnum,“ sagði Hodgson sem þarf að skera hópinn niður um þrjá leikmenn fyrir EM.

Auk Rashford eru fjórir aðrir framherjar í 26 manna hópi Hodgson; Harry Kane, Jamie Vardy, Daniel Sturridge og Wayne Rooney. Þeir tveir fyrstnefndu skoruðu mörk Englands í 2-1 sigri á Tyrklandi í vináttulandsleik á sunnudaginn.

England er í riðli með Rússlandi, Wales og Slóvakíu á EM. Fyrsti leikur enska liðsins er gegn því rússneska í Marseille 11. júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×