Fótbolti

Vardy og Kane á skotskónum í fjarveru Rooney

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leikmenn enska landsliðsins fagna marki Kane.
Leikmenn enska landsliðsins fagna marki Kane. Vísir/Getty
Enska landsliðið vann 2-1 sigur á Tyrklandi á City of Manchester Stadium í dag en þetta var fyrsti af þremur æfingarleikjum liðsins fyrir EM.

Enska landsliðið lék án leikmanna frá Manchester United eftir bikarleik liðsins í gær og fengu því Jamie Vardy og Harry Kane tækifærið saman í fremstu víglínu í fjarveru Wayne Rooney.

Það tók Kane aðeins þrjár mínútur að brjóta ísinn þegar hann renndi boltanum í netið af stuttu færi.

Kane reyndist vera rangstæður þegar sendingin frá Dele Alli kom inn fyrir vörnina en dómararnir dæmdu ekki og afgreiddi Kane færið vel.

Hakan Calhanoglu, miðjumaður tyrkneska landsliðsins og Bayer Leverkusen, jafnaði metin skömmu síðar eftir misskilning í varnarlínu Englands og var staðan því jöfn í hálfleik.

Kane fékk færi til að bæta við öðru marki Englands á 72. mínútu af vítapunktinum eftir að brotið var á Jamie Vardy innan vítateigsins en vítaspyrna hans fór í stöngina.

Tíu mínútum síðar bætti Vardy upp fyrir vítaspyrnuna með skoti af stuttu færi sem fór af Volkan Babacan og í netið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×