Fótbolti

Neymar: Enginn vill Ólympíugull meira en ég

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Brasilíski fótboltamaðurinn Neymar, nýkrýndur Spánarmeistari með Barcelona, segir það alveg þess virði að sleppa Copa America fyrir Ólympíuleikana en það þarf hann að gera í sumar að beiðni Börsunga.

Brasilíumenn verða án Neymars á hundrað ára afmæliskeppni Copa America sem fram fer í Bandaríkjunum í júní en hann ætlar að einbeita sér að því að vinna Ólympíugull með U23 ára liði Brasilíu í Ríó.

Brassar hafa unnið alla þá titla sem í boði eru og oftar en tvisvar, það er að segja allt nema Ólympíugullið. Neymar var í liði Brasilíu sem tapaði fyrir Mexíkó í úrslitaleik í London fyrir fjórum árum og nú ætlar hann sér að vinna gullið á heimavelli.

„Ég er tilbúinn að taka á mig þessa ábyrgð. það eru ekki bara íbúar Brasilíu sem þrá þetta gull. Enginn vill Ólympíugullið meira en ég,“ segir Neymar í viðtali við Globo.

„Ég var ekkert svekktur að þurfa að velja á milli Copa America og Ólympíuleikana því ég mun spila í móti sem liðið mitt á eftir að vinna. Og það fer fram í Brasilíu!“

„Auðvitað vildi ég taka þátt í báðum keppnum en ég skil afstöðu Barcelona og virði þann samning sem við komumst að niðurstöðu um,“ segir Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×