Erlent

Brottfararsalur flugvallarins í Brussel opnar á ný

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, við opnunina.
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, við opnunina. Vísir/EPA
Brottfararsalur Zaventem-flugvallarins í Brussel hefur verið opnaður á ný í fyrsta sinn eftir hryðjuverkaárásirnar í Brussel í mars þar sem tveir hryðjuverkumenn sprengdu sjálfa sig í loft upp ásamt sextán flugvallargestum.

Búið var að opna flugvöllinn sjálfan á nýjan leik að einhverju leyti en útbúinn hafði verið tímabundinn brottfararsalur fljótlega eftir hryðjuverkaárásirnar svo hefja mætti starfsemi á flugvellinum skömmu eftir árásirnar. Miklar skemmdir urðu á brottfararsalnum í árásunum sem sinn tíma tók að laga.

Haldin var sérstök athöfn þegar brottfararsalurinn var opnaður á nýjan leik og hélt forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, ræðu.

„Við höfum öll valið það að spyrna við fótum og í dag opnar flugvöllur höfuðborgar okkar á nýjan leik. Brussel er klár í slaginn,“ sagði Michel en sérstakt minnismerki um þá sem féllu í árásunum var vígt við athöfnina.

Gríðarleg öryggisgæsla var við athöfnina og gera má ráð fyrir að svo verði áfram en búið er að efla alla öryggisgæslu á flugvellinum til muna eftir hryðjuverkaárásirnar í mars. Forstjóri rekstaraðila flugvallarins sagði að opnun brottfararsalsins væri mikilvægt skref til þess að endurbæta ímynd borgarinnar. Sagðist hann vona að flug gætu hafist af fullum krafti að nýjum leik um miðjan næsta mánuð.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×