Fótbolti

Ekki ferðast til Basel án miða á leikinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Klopp fór aðeins fram úr sér.
Klopp fór aðeins fram úr sér. vísir/getty
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að það hafi verið mistök hjá sér að hvetja alla stuðningsmenn Liverpool að koma á úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Basel.

Stuðningsmenn Liverpool fá aðeins 10.236 miða á leikinn sem er gegn ríkjandi meisturum Sevilla. Leikurinn fer fram þann 18. maí næstkomandi.

St. Jakob-Park tekur aðeins 35 þúsund manns í sæti og stuðningsmenn Liverpool fá kannski nokkra aukamiða ef Sevilla nær ekki að selja sinn kvóta.

„Síðast þegar ég talaði um Basel þá talaði ég eins og stuðningsmaður og bauð öllum stuðningsmönnum Liverpool að koma til Basel,“ sagði Klopp.

„Það var ekkert sérstaklega gáfulegt af mér. Basel er fín borg en hún er ekki tilbúin að taka á móti okkur öllum. Það voru mín mistök að kasta þessu fram. Ég bið aðeins fólk sem á miða að koma. Annars verður örtröð í borginni og við viljum það ekki.

„Við verðum að hugsa um fótboltann. Það er frábært að vera á vellinum en ef menn geta það ekki þá er betra að vera heima í Liverpool og horfa á leikinn með vinum og fagna þar. Það er mjög mikilvægt að fólk fari eftir þessu. Oftast er hægt að gefa lítið fyrir það sem ég segi en núna er mikilvægt að hlusta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×