Sport

21 árs heimsmeistari fórst í snjóflóði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Estelle Balet.
Estelle Balet. Vísir/EPA
Snjóbrettaheimurinn missti eina af stjörnum sínum í gær þegar heimsbikarmeistari Estelle Balet lést eftir að hafa lent í snjóflóði í svissnesku Ölpunum.

Estelle Balet var að taka upp myndband í fjöllunum fyrir ofan Orsieres þorpið þegar snjóflóðið hreif hana með sér.

Balet var að elta annan snjóbrettakappa þegar snjóflóðið féll en sá hinn sami slapp ómeiddur frá slysinu.

Balet var með sérstakan öryggisbúnað til að verjast snjóflóðum eins og staðsetningartæki og sérútbúinn loftpoka sem átti að hjálpa henni að halda sér ofan á hugsanlegu snjóflóði.

„Þrátt fyrir að menn hafa brugðist hratt við og reynt að lífga hana við tókst það ekki og hún lést á staðnum," segir í tilkynningu frá lögreglunni í Orsieres.

Estelle Balet vann sinn annan heimsmeistaratitil fyrir aðeins nokkrum vikum en hún var aðeins 21 árs gömul. Þegar hún vann fyrri heimsmeistaratitilinn sinn í fyrra varð hún yngsti keppandinn til að vinna  Freeride World Tour.

Hún var að taka upp snjóbrettaatriði í myndinni Exploring the Known þegar slysið varð.

Hennar sérsvið í keppni á snjóbrettum var í frjálsi aðferð eða þegar keppendur fylgja ekki ákveðni braut. Það er almennt talinn vera mun hættulegra en þar sem keppt er í braut. Hún var því vön að vinna með krefjandi aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×