Enski boltinn

Mourinho stýrir enska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho.
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea og Real Madrid, mun stýra enska landsliðinu í góðgerðaleik á móti liði Claudio Ranieri á Old Trafford í sumar.

Liðin munu mætast í árlegum Soccer Aid leik þar sem er safnað fyrir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Unicef. Í ár mun verkefnið fagna tíu ára afmæli sínu. Sky segir frá.

Aðstoðarmaður Jose Mourinho í leiknum verður Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Sunderland, en Robbie Williams, annar af stofnendum Soccer Aid verkefnisins verður einnig í þjálfarateyminu.

„Ég vil vera sá fyrsti til að vinna Soccer Aid með bæði enska liðinu og heimsliðinu," sagði Jose Mourinho en hann stýrði heimsliðinu til 4-2 sigurs í leiknum sumarið 2014.

„Ég og Sam munum vinna vel saman og það verður gott fyrir Claudio að fá loksins að kynnast því að tapa leik. Ég vona að umsjónarmenn leiksins geti líka hjálpað mér að fá enskt vegabréf," sagði Mourinho.

Claudio Ranieri er langt kominn með að gera Leicester City að enskum meisturum en liðið var í harðri fallbaráttu fyrir ári síðan. „Það var mikill heiður fyrir mig að Robbie Williams bað mig um að stýra heimsliðinu í þessum tíu ára afmælisleik.  Ég hlakka til að hjálpa þeim að verja titilinn,“ sagði Claudio Ranieri.

Soccer Aid leikurinn fór fram á Wembley 2008 en hefur farið fram á Old Trafford 2006, 2010, 2012 og 2014. Verkefnið hefur safnað samtals 17 milljónum punda fyrir Unicef sem gera rúmlega þrjá milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×