Fótbolti

Ótrúlegt Evrópukvöld á Anfield og Liverpool áfram eftir frábæra endurkomu | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það trylltist allt á Anfield eftir sigurmark Dejans Lovren.
Það trylltist allt á Anfield eftir sigurmark Dejans Lovren. vísir/getty
Liverpool er komið áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir ævintýralegan 4-3 endurkomusigur á Borussia Dortmund á Anfield í kvöld.

Fyrri leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli en Dortmund byrjaði leikinn í kvöld af gríðarlegum krafti og og eftir níu mínútur var staðan orðin 0-2.

Henrikh Mkhitaryan kom Þjóðverjunum yfir strax á 5. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Pierre-Emerick Aubameyang sem Simon Mignolet varði. Aðeins fjórum mínútum síðar bætti Aubameyang svo öðru marki við eftir frábæra sendingu frá Marco Reus.

Staðan var 0-2 í hálfleik en á 48. mínútu minnkaði Divock Origi muninn eftir að hafa sloppið í gegnum vörn Dortmund.

Reus kom Dortmund aftur í lykilstöðu þegar hann skoraði á 57. mínútu og öll sund virtust vera lokuð fyrir Liverpool. En skömmu síðar gerði Jürgen Klopp tvöfalda skiptingu, setti Daniel Sturridge og Joe Allen inn á í staðinn fyrir Roberto Firmino og Adam Lallana, það hleypti nýju lífi í lið Liverpool.

Philippe Coutinho minnkaði muninn í 2-3 með góðu skoti á 66. mínútu og 12 mínútum síðar skallaði Mahmadou Sakho, sem leit illa út í mörkunum sem Dortmund skoraði, boltann í netið.

Liverpool þurfti því aðeins eitt mark til að komast áfram og sótti stíft. Og pressan bar árangur á fyrstu mínútu í uppbótartíma þegar Dejan Lovren stangaði boltann í netið.

Ótrúlegur endir á ótrúlegum leik og Liverpool er komið áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar.

Mörkin úr leikjum kvöldsins í Evrópudeildinni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×