Fótbolti

Klopp sagði leikmönnunum að búa til góða sögu fyrir barnabörnin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Divock Origi og Jürgen Klopp fagna á Anfield í gær.
Divock Origi og Jürgen Klopp fagna á Anfield í gær. Vísir/Getty
Belginn Divock Origi skoraði fyrsta mark Liverpool af þeim fjórum sem liðið gerði í seinni hálfleik í endurkomusigri sínum á móti Borussia Dortmund í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Anfield í gærkvöldi.

Liverpool lenti 2-0 undir eftir níu mínútur og var ennfremur 3-1 undir í upphafi seinni hálfleiksins. Þrjú mörk á lokakafla leiksins þar af sigurmark í uppbótartíma tryggði Liverpool sæti í undanúrslitum.

Divock Origi sagði frá því eftir leikinn að mögnuð hálfleiksræða knattspyrnustjórans Jürgen Klopp hafi kveikt í Liverpool-liðinu.  Klopp var þarna að stýra sínu liði á móti liðinu sem hann gerði að einu besta liði Evrópu á sínum tíma.

„Þjálfarinn sagði okkur að búa til sögu sem við gætum sagt barnabörunum okkar frá og búa til sérstakt kvöld fyrir stuðningsmennina," sagði Divock Origi við Daily Mail.

„Við höfðum trúna. Þegar við skoruðum fyrsta markið þá leið okkur eins og að eitthvað sérstakt væri að gerast. Í lokin voru allir, varnarmenn og framherjar, að berjast um boltann og ég tel að við höfum átt þennan sigur skilinn," sagði Origi.

Divock Origi skoraði í báðum leikjunum á móti Borussia Dortmund en hann hefur nú skorað fjögur mörk í þremur síðustu leikjum Liverpool-liðsins í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×