Fótbolti

Hræddur um að Klopp fái stuðningsmenn Dortmund á sitt band

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp er dýrkaður og dáður á Anfield og Westfalen.
Jürgen Klopp er dýrkaður og dáður á Anfield og Westfalen. vísir/getty
Hans-Joachim Watzke, hinn málglaði framkvæmdastjóri Dortmund, hefur áhyggjur að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, muni hafa áhrif á stemninguna á Westfalen-vellinum á fimmtudaginn þegar Dortmund og Liverpool mætast í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Klopp er goðsögn í lifanda lífi hjá stuðningsmönnum Dortmund eftir að vinna þýsku deildina tvö ár í röð, bikarinn einu sinni og komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á þeim sjö árum sem hann stýrði liðinu.

Dortmund treystir mikið á heimavöllinn en liðið á einhverja bestu stuðningsmenn Evrópu og er stemningin á hverjum einasta leik nánast engu lík.

„Mest af öllu hræðist ég að Klopp muni sefa alla og láta alla halda að þeir þurfi ekkert að óttast. Ég óttast líka að hann reyni að fá okkar stuðningsmenn á sitt band þannig leikurinn verði eins og vináttuleikur,“ segir Watzke í viðtali við Guardian.

Dortmund er mjög sigurstranglegt í Evrópudeildinni en Thomas Tuchel, þjálfari liðsins, er að gera frábæra hluti með liðið sem er í öðru sæti þýsku deildarinnar á eftir Bayern München og fór létt með Tottenham í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

„Ég vil að okkar stuðningsmenn sýni Jürgen virðingu eftir leikinn en ekki fyrir hann og ekki á meðan honum stendur. Við verðum að standa saman til að vinna lið eins og Liverpool,“ segir Thomas Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×