Erlent

Abdeslam var á hlaupum frá lögreglu þegar hann var skotinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Abdeslam á hlaupum skömmu áður en hann var særður.
Abdeslam á hlaupum skömmu áður en hann var særður.
Salah Abdeslam, sem grunaður er um aðild að hryðjuverkunum í París í nóvember, var á hlaupum frá lögreglu þegar hann var skotinn í fótinn. Lögmaður hans segir hann ekki starfa með lögreglu í skiptum fyrir vægari refsingu. Þá hefur lögreglan borið kennsl á vitorðsmann hans, sem enn leikur lausum hala.

Vitorðsmaðurinn heitir Najim Laachraoui og er 24 ára gamall. DNA úr honum fannst í íbúð þar sem fjórir lögregluþjónar særðust í áhlaupi á íbúðina og Abdeslam og Laachraoui komust undan. Þriðji maðurinn Mohammed Belkaid, var skotinn til bana af lögreglu. Hann var innflytjandi frá Alsír.

Lögreglan í Brussel hefur birt þessa mynd af Najim Laachraoui.
Vitað er að Laachraoui ferðaðist til Sýrlands í febrúar 2013 en lögreglan í Belgíu hefur biðlað til almennings að vera á varðbergi gagnvart honum. Auk hans er einnig leitað að Mohamed Abrini, en hann var með Abdeslam á bensínstöð tveimur dögum fyrir árásirnar í París.

Samkvæmt saksóknurum í Brussel er vitað til þess að Abdeslam hafi tvisvar sinnum ferðast til Búdapest í Ungverjalandi í september. Tveir aðrir menn hafi verið með honum í för en þeir notuðust við fölsuð skilríki. Á þeim skilríkjum hétu þeir Samir Bouzid og Soufiane Kayal.

Í ljós er komið að Kayal og Laachraoui eru sami maðurinn og telja yfirvöld líklegt að Bouzid sé Mohammed Belkaid.

Franskur saksóknari sagði frá því um helgina að Abdeslam hefði ætlað að sprengja sig í loft upp í París, en hafi hætt við. Lögmaður hans hefur nú höfðað mál gegn saksóknaranum fyrir að brjóta gegn trúnaði. Þá ætlar Abdeslam að berjast gegn því að vera framseldur til Frakklands.

Þá sagði utanríkisráðherra Belgíu í gær að Abdeslam hefði verið að skipuleggja hryðjuverk í Brussel þegar hann var handtekinn.

Nýtt myndband af handtökunni hefur nú litið dagsins ljós, þar sem sjá má að Abdeslam var á hlaupum frá lögreglu þegar hann var skotinn í fótinn. Myndbandið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×