Fótbolti

Aubameyang segir frá "furðulegum“ viðræðum við Tottenham

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir-getty
Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Dortmund, segir að hann myndi aldrei spila fyrir Tottenham eftir „furðulegar“ samningaviðræður við Lundúnarfélagið fyrir fjórum árum síðan.

Aubameyang skoraði eitt af þremur mörkum Dortmund þegar þýska liðið pakkaði Tottenham saman, 3-0, í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Hann er nú búinn að skora 33 mörk í 38 leikjum á tímabilinu.

„Ef Spurs myndi reyna að kaupa mig aftur myndi ég segja nei,“ sagði Aubameyang við fréttamenn eftir leikinn í gærkvöldi.

Tottenham var nálægt því að kaupa framherjann frá St.Étienne í Frakklandi árið 2012 en eftir langar samningaviðræður gekk það ekki í gegn. Aubameyang var svekktur með hvernig Tottenham kom fram í viðræðunum.

„Á endanum varð allt mjög furðulegt. Mér líkaði ekki hvernig þetta fór fram,“ sagði Pierre-Emerick Aubameyang.

Gabon-maðurinn spilaði eitt ár til viðbótar í Frakklandi en fór svo til Dortmund ári síðar þar sem hann hefur slegið í gegn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×