Formúla 1

Hamilton: Formúla 1 í ólagi og stefnulaus

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lewis Hamilton, heimsmeistari í Formúlu 1, telur að íþróttin sé í ólagi nú þegar verið er að reyna ákveða reglur fyrir næstu tvö árin.

Hann hefur gagnrýnt sumar breytingarnar opinberlega og þá sérstaklega nýja Halo-kerfið sem á að verja ökuþóra frá því að fá í sig leifar úr öðrum bílum.

„Nei! Þetta er ljótasta breyting í sögu Formúlu 1. Ég kann að meta að það sé hugsað um öryggi okkar en þetta er Formúla 1 og þetta er fínt eins og þetta er núna,“ skrifaði Hamilton við mynd af nýja varnarkerfinu sem sett er fyrir framan ökumannsklefann.

Aðspurður af blaðamönnum í gær hvort hann telji Formúlu 1 í ólagi og hún sé stefnulaus og óheilbrigð svaraði heimsmeistarinn: „Þetta fyrsta tvennt sem þú nefndir. Ég vil ekki segja of mikið en ég er sammála því.“

Fleiri breytingar eins og með tímatökur hafa ollið miklu fjaðrafoki en aðspurður um þær á dögunum sagði Fernando Alonso, ökumaður McLaren: „Þetta er sorglegt.“

Hann bætti við: „Ef ég væri íþróttamaður í annarri íþrótt myndi ég vera hissa á því sem er að gerast í Formúlu 1.“

„Allir vinir mínir á Spáni vilja bara horfa á baráttu á brautinni, stóra bíla, stór dekk, mikinn hávaða og njóta keppninnar eins og í öðrum íþróttum. Við verðum að einfalda þessar reglur,“ sagði Fernando Alonso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×