Innlent

Formaður Bændasamtakanna: "Við höfum ekkert að fela“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sindri Sigurgeirsson flytur setningarræðu sína.
Sindri Sigurgeirsson flytur setningarræðu sína. vísir/vilhelm
„Það er sjálfsagt og eðlilegt að rætt sé í samfélaginu um stuðninginn, hvernig honum á að vera háttað og hvað við viljum draga fram með honum. Sú umræða þarf þó að fara fram með sanngjörnum hætti,“ sagði Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna í setningarræðu Búnaðarþings.

Búnaðarþing var sett í dag í Hörpu við hátíðlega athöfn. Gestum og gangandi gafst við það tilefni tækifæri á að kynna sér íslenskar landbúnaðarafurðir og vélar sem brúkaðar eru við framleiðsluna.

Í setningarræðu sinni rakti Sindri hvernig niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum var komið á fót árið 1943 og að þær hefðu verið liður í að draga úr verðbólgu. Sagði hann að bændur hefðu verið tilbúnir til að leggja mikið af mörkum til að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Aftur hafi það gerst árið 1990 með þjóðarsáttinni enda ríkti traust um að „fleiri tækju þátt í víðlíka aðgerðum“.

„Sú varð ekki raunin sem olli mikilli gremju meðal bænda. Þá er einnig mikilvægt að halda því til haga að við bændur lögðum okkar af mörkum ivð að koma þjóðinni í gengum það erfiða ástand sem efnahagshrunið árið 2008 leiddi af sér,“ sagði Sindri. Annars vegar hefðu búvörusamningar verið teknir upp á ný og hins vegar hafi verð á íslenskum landbúnaðarvörum hækkað minna en verð á öðrum vörum.

Undanfarna daga hefur talsvert verið deilt um nýja búvörusamninga sem undirritaðir voru fyrir rúmri viku. Þeir eru til tíu ára og fela í sér að beinn stuðningur til bænda verður um um þrettán milljarðar árlega. Hægt er að endurskoða samningin árin 2019 og 2023.

Sindri benti í ræðu sinni, líkt og Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra hefur gert, á að fyrir þrjátíu árum hafi stuðningur til bænda numið fimm prósentum af landsframleiðslu en sé rétt rúmt prósent nú. Á þeim tíma hefur landsframleiðsla margfaldast.

„Við tökum þessari umræðu fagnandi við höfum ekkert að fela og erum alltaf tilbúin til að koma og upplýsa um okkar málefni. Gleymum því ekki að bændur eru líka neytendur og skattgreiðendur,“ sagði Sindri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×