Fótbolti

Verður ekki auðvelt gegn Midtjylland

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það var létt yfir stjóranum á æfingu Man. Utd í gær.
Það var létt yfir stjóranum á æfingu Man. Utd í gær. vísir/getty
Man. Utd er komið til Herning í Danmörku þar sem liðið spilar gegn Midtjylland í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Stjóri Man. Utd, Louis van Gaal, hefur gefið það út að félagið ætli sér alla leið í Evrópudeildinni en hann býst ekki við auðveldum leik í Danmörku í kvöld.

„Þeir spila bolta sem getur gert okkur erfitt fyrir. Rétt eins og Sunderland,“ sagði Van Gaal en leikurinn fer fram á MCH Arena sem tekur tæplega 12 þúsund manns.

„Aðstæður eru ekki auðveldar. Ég er búinn að skoða völlinn sem er minni en við erum vanir. Það er ekki auðvelt að vinna Midtjylland hérna og það hafa mörg lið fengið að upplifa. Þetta verður allt annað en auðvelt.“

Ef United tekst að vinna keppnina þá fær liðið þátttökurétt í Meistaradeildinni að ári.

„Það er stóra gulrótin í þessari keppni. Svo væri gaman að vinna keppnina því félagið hefur aldrei gert það áður.“

Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×