Fótbolti

Wilson ekki kallaður til baka frá Brighton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wilson í leik með Brighton gegn Wolves.
Wilson í leik með Brighton gegn Wolves. vísir/getty
Þrátt fyrir meiðsli Waynes Rooney ætlar Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, ekki að kalla framherjann James Wilson til baka úr láni frá  Brighton.

Rooney er meiddur á hné og talið er að hann verði frá í allt að tvo mánuði. Þetta er mikið áfall fyrir United enda er Rooney búinn að spila á þessu ári.

Wilson hefur verið í láni hjá Brighton í næstefstu deild frá því í nóvember og skorað þrjú mörk í 12 deildarleikjum með liðinu.

„Nei,“ sagði Van Gaal einfaldlega á blaðamannafundi fyrir leik Midtjylland og United, aðspurður hvort hann ætlaði að kalla hinn tvítuga Wilson til baka úr láni.

Sjá einnig: Verður ekki auðvelt gegn Midtjylland

„Í augnablikinu höfum við Will Keane og Anthony Martial. Memphis Depay getur einnig leyst þesa stöðu,“ bætti Van Gaal við en hans menn mæta dönsku meisturunum í kvöld og á mánudaginn sækir United svo Shrewsbury heim í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Leikur Midtjylland og Manchester United hefst klukkann 18:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þá verður hægt að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×