Innlent

Yfir 90 prósent EM-fara fengu heimild á kortið sitt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir okkar spila á stórmóti í fyrsta skipti í sumar.
Strákarnir okkar spila á stórmóti í fyrsta skipti í sumar. Vísir/Vilhelm
„Heilt yfir virðist þetta hafa gengið býsna vel,“ segir Bergsveinn Sampsted, framkvæmdastjóri kortaútgáfusviðs hjá Valitor. Fjölmargir stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hafa í dag fengið að vita hvort miðarnir, sem þeir sóttu um á dögunum, væru þeirra.

Kaupendur hafa margir hverjir fengið staðfestinguna frá aðilanum sem sér um miðasöluna fyrir Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, í dag. Bergsveinn segist ekki vita fyrir víst hvort allar beiðnirnar séu komnar í gegn en það sé eins og þær komi í skömmtum.

Þau hjá Valitor höfðu tekið saman tölfræði yfir miðamálin seinni partinn og töldu að kaupin hefðu gengið í gegn hjá yfir 90 prósent þeirra sem sóttu um miða. Um átta prósent virtust hafa fengið synjun og væri þá yfirleitt um að ræða það vandamál að heimild reyndist ekki nógu há.

Ekki besti tími mánaðarins

Bergsveinn segir greinilegt að korthafar hafi flestir gert ráðstafanir enda hafi kaupendur fengið skýr skilaboð um að gæta að því að heimildin væri nóg mikil. Gengi greiðslan ekki í gegn þá fengi fólk ekki miðana. Einnig sé gott að þetta hafi gengið í gegn hjá svo afgerandi meirihluta fólks en mánaðarmót sem sé ekki endilega besti tíminn til að skuldfæra.

Hann segir nokkur þúsund greiðslur vera komnar í gegn en hann hafi ekki yfirlit hve mikið sé enn í pípunum. 

Rétt er að taka fram að tölfræðin nær að sjálfsögðu aðeins til notenda VISA greiðslukorta en vafalítið hafa fjölmargir einnig sótt um miða og greitt fyrir með annars konar greiðslukorti, s.s. Mastercard eða American Express.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×