Fótbolti

Þetta er prófraun á leikmennina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Heimir vonar að aðrir leikmenn stígi upp í kvöld.
Heimir vonar að aðrir leikmenn stígi upp í kvöld. vísir/Ernir
Þátttöku íslenskra liða í Evrópukeppnum gæti lokið í kvöld en bæði FH og KR eru einu marki undir fyrir leiki kvöldsins. KR mætir norska stórveldinu Rosenborg en FH mætir Inter Baku í Aserbaídsjan. Lið FH sem ferðaðist til Aserbaídsjan er vængbrotið en Róbert Örn Óskarsson er í leikbanni og verður því hinn 44 árs gamli Kristján Finnbogason í markinu hjá FH.

Þá verða Steven Lennon, Guðmann Þórisson og Atli Viðar Björnsson fjarverandi. Heimir viðurkenndi að ekki væri um óskaundirbúning að ræða.

„Sem betur fer eru allir aðrir klárir, þetta er ákveðin prófraun á aðra leikmenn. Þeir eru er sterkari á heimavelli en við sáum í fyrri leiknum að við eigum möguleika ef við eigum góðan leik,“ sagði Heimir sem var viss um að hinn 44 ára gamli Kristján myndi standa sig í markinu.

„Hann er ótrúlegur, hann er búinn að vera frábær á æfingum. Hann er í toppstandi og virðist bara verða betri með aldrinum.“

Í Þrándheimi mæta KR-ingar til leiks eftir 0-1 tap á heimavelli. KR-ingar áttu ágætis rispur í leiknum en til þess að stríða norska stórveldinu þurfa þeir að eiga toppleik.

„Það er smá óvissa með Þorstein Má en annars eru allir klárir í slaginn. Við getum spilað betur en í síðasta leik en við vitum það að þeir eru með ógnarsterkt lið og munu eflaust spila betur en í fyrri leiknum. Þetta er það stórt lið og kröfur eru gerðar til spilamennskunar þannig að við verðum að eiga toppleik til að eiga séns á að komast áfram, til að byrja með þurfum við að halda hreinu og við reynum að vinna út frá því,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×