Íslenski boltinn

Sóknarmenn hjá báðum toppliðunum tæpir fyrir stórleikinn á morgun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gary Martin skoraði sigurmarkið í bikarleik KR og FH.
Gary Martin skoraði sigurmarkið í bikarleik KR og FH. Vísir/Andri Marinó
Tvö efstu lið Pepsi-deildar karla, FH og KR, mætast í stórleik 12. umferðar á morgun. Fyrir leikinn er FH með eins stigs forskot á KR en með sigri fer Vesturbæjarliðið á toppinn í fyrsta sinn í sumar.

Liðin hafa þegar mæst tvisvar í sumar. FH vann leik liðanna í 1. umferð Pepsi-deildarinnar með þremur mörkum gegn einu. KR-ingar komust yfir á 50. mínútu en FH skoraði þrjú mörk á síðustu 17 mínútum leiksins og tryggði sér sigurinn.

KR-ingar, sem hafa unnið þrjá síðustu deildarleiki sína án þess að fá á sig mark, hefndu fyrir tapið í 1. umferðinni með því að slá FH út í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins fyrir tveimur vikum.

Gary Martin skoraði sigurmark KR í leiknum en athyglisvert verður að sjá hvort hann eða Hólmbert Aron Friðjónsson byrji í fremstu víglínu á morgun. Ekki er víst að Þorsteinn Már Ragnarsson verði búinn að ná sér af meiðslunum sem hann varð fyrir í Evrópuleiknum gegn Rosenborg.

Hjá FH er sömuleiðis óvissa með Steven Lennon en hann missti af leiknum gegn Inter Bakú á fimmtudaginn vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×