Íslenski boltinn

Versta byrjun Keflvíkinga í 55 ár í efstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristján Guðmundsson er í vandræðum.
Kristján Guðmundsson er í vandræðum. vísir/stefán
Keflvíkingar hafa farið afar illa af stað í Pepsi-deild karla í sumar. Lærisveinar Kristjáns Guðmundssonar töpuðu sínum fjórða leik í fyrrakvöld þegar þeir lágu, 1-3, fyrir Fylki á Nettó-vellinum í Keflavík í 5. umferð deildarinnar.

Keflvíkingar eru sem stendur í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með aðeins eitt stig, sem þeir fengu fyrir jafnteflið gegn Breiðabliki í 3. umferð.

Þessi slaka byrjun Keflavíkur er gjörólík þeirri sem þeir áttu í fyrra. Þá vann liðið þrjá fyrstu leikina, tapaði næst fyrir KR en náði svo í stig gegn FH. Keflvíkingar voru því með tíu stig eftir fyrstu fimm umferðirnar í fyrra en þessi frábæra byrjun liðsins fór langt með að tryggja því áframhaldandi veru í Pepsi-deildinni. Keflavík vann aðeins þrjá leiki það sem eftir lifði tímabilsins en það breytti engu. Keflvíkingar enduðu í 8. sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra, fjórum stigum frá fallsæti.

Nú er hins vegar annað uppi á teningnum. Keflavík er aðeins með eitt stig eftir fyrstu fimm umferðirnar en liðið hefur ekki verið með svona fá stig eftir fimm umferðir síðan 1960, eða í 55 ár. Þá gerði Keflavík 2-2 jafntefli við Val í 1. umferðinni en tapaði svo fjórum næstu leikjum sínum með markatölunni 1-13.

Keflvíkingar unnu tvo leiki í seinni umferðinni – á þessum tíma voru sex lið í deildinni og tvöföld umferð leikin – en það dugði ekki til að bjarga þeim frá falli.

Keflavík féll niður í 2. deild og þeirra sæti tók ÍBH (Íþróttabandalag Hafnarfjarðar). Keflavík var tvö ár í 2. deild en sneri aftur í deild þeirra bestu 1963. Ári seinna varð liðið svo Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

Frá 1960 hefur Keflavík ekki fengið minna en tvö stig (sé tveggja stiga reglan umreiknuð í þriggja stiga regluna) í fyrstu fimm umferðunum í efstu deild. Minnst fengu Keflvíkingar tvö stig 1968 og 1996 en bæði árin björguðu þeir sér frá falli. Jafnvel árin sem Keflavík féll niður um deild, 1980, 1989 og 2002, fékk liðið alltaf þrjú stig eða fleiri.

Athyglisvert verður að sjá hvort Keflvíkingar nái að hala inn fleiri stig á næstunni en ljóst er að þeir þurfa að taka sig taki ef ekki á illa að fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×