Erlent

Grikkir fá grænt ljós á sparnaðinn

guðsteinn bjarnason skrifar
Í gærmorgun skrapp Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í heimsókn til tónskáldsins þekkta, Mikis Theodorakis.
Í gærmorgun skrapp Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í heimsókn til tónskáldsins þekkta, Mikis Theodorakis. fréttablaðið/EPA
Ráðherrar evruríkjanna samþykktu í gær áform grísku stjórnarinnar um sparnað og umbætur í ríkisrekstri. Enn á þó eftir að staðfesta þetta samþykki í hverju ríki fyrir sig, oft með atkvæðagreiðslu í þjóðþingum.

Í staðinn fá Grikkir allt að fjögurra mánaða framlengingu á efnahagsaðstoð, sem annars hefði runnið út nú um mánaðamótin næstu. Christine Legarde, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir þó margt óljóst í áformum Grikkja. Frekari skýringar þurfi og tryggingar fyrir því að staðið verði við þessi áform.

Áform Grikkja snúast einkum um að útrýma spillingu og skattaundanskotum ásamt sparnaði í ríkisrekstri. Sparnaðinum á að ná fram með því að fækka ráðuneytum úr 16 í tíu, fækka ráðgjöfum og frysta viðbótargreiðslur til æðstu embættismanna. Umfram allt á sparnaðurinn þó ekki að bitna á launum og lífeyri.

Auk þessa ætla Grikkir að gera breytingar á skattkerfinu og tollum. Stofnað verður sérstakt fjármálaráð sem á að fylgjast grannt með öllum ríkisútgjöldum.

Gríska stjórnin, sem komst til valda eftir stórsigur vinstriflokksins SYRIZA í þingkosningum fyrir mánuði, hefur þó þurft að gefa verulega eftir.

Bæði í kosningabaráttunni og fyrst eftir stjórnarmyndun höfðu leiðtogar stjórnarinnar, þeir Alexis Tsipras forsætisráðherra og Janis Varúfakis fjármálaráðherra, uppi stór orð. Þeir kröfðust þess að allt að þriðjungur skulda gríska ríkisins yrði felldur niður og afborganir gerðar léttari svo ríkið gæti aukið útgjöld sín til að koma til móts við almenning, sem strangar niðurskurðaraðgerðir síðustu ára hafa bitnað hart á.

Lítið er eftir af þeim kröfum nú, þegar þessi málamiðlun er í höfn. Þeir sem lengst eru til vinstri í SYRIZA eru harla ósáttir og óvíst um stuðning þeirra við stjórnina.

Stjórnin gerir sér líka grein fyrir að þetta er aðeins fyrsta skrefið: „Við höfum fengið nokkrar vikur,“ segir í tilkynningu frá gríska fjármálaráðuneytinu. „Þetta er bara eitt skref, en í réttu áttina.“

Skuldir gríska ríkisins nema nú 175 prósentum af landsframleiðslunni en frá upphafi kreppunnar hefur orðið 25 prósent samdráttur á efnahag landsins.

Atvinnuleysi í Grikklandi er enn í 25 prósentum. Meðal ungmenna er atvinnuleysið 50 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×