Körfubolti

Kidd á skurðarborðið í dag | Þjálfarinn sem tapaði á móti Íslandi tekur við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Prunty reynir hér að róa Jason Kidd.
Joe Prunty reynir hér að róa Jason Kidd. Vísir/Getty
Jason Kidd mun ekki þjálfa lið Milwaukee Bucks á næstunni en hann þarf að gangast undir aðgerð á mjöðm í dag. Kiddi stýrði síðasta leiknum í bili í nótt.

Milwaukee Bucks vann 101-95 sigur á Phoenix Suns í síðasta leik þjálfarans í bili en aðstoðarmaður hans Joe Prunty mun þjálfa liðið þar til Kidd kemur til baka. Það er ekki ljóst hvenær það verður.

Jason Kidd spilaði á sínum tíma 1391 leiki í NBA og það er stór ástæða fyrir því í hversu miklum vandræðum hann hefur verið með mjöðmina á sér.

„Ég reyndi að fresta aðgerðinni eins lengi og ég gat. Eftir að hafa ráðfært mig við lækninn minn þá var ljóst að það besta í stöðunni var að fara í aðgerðina strax," sagði Jason Kidd.

Milwaukee Bucks hefur unnið 11 af 29 leikjum tímabilsins en einn af þessum sigrum var á móti toppliði Golden State Warriors á dögunum. Þetta er annað tímabil Kidd með lið Milwaukee Bucks en hann þjálfaði áður Brooklyn Nets.

Við Íslendingar höfum smá reynslu af Joe Prunty, manninum sem leysir Kidd af. Joe Prunty þjálfar breska landsliðið sem íslensku strákarnir skildu eftir í riðlinum þegar þeir komust inn á lokamót Evrópumótsins í körfubolta í fyrsta sinn.

Íslenska landsliðið vann báða leikina, með þrettán stigum í Laugardalshöllinni og með tveimur stigum út í London. Breska landsliðið hafði verið með á síðasta Evrópumóti og á síðustu Ólympíuleikum en lent í niðurskurði sem Prunty og leikmenn hans kvörtuðu mikið yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×