Fótbolti

Kraftaverk Lars Lagerbäck eitt af 24 stærstu íþróttafréttunum í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsþjálfaranir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson fagna hér EM-sætinu á Laugardalsvellinum í september.
Landsliðsþjálfaranir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson fagna hér EM-sætinu á Laugardalsvellinum í september. Vísir/Vilhelm
Sænska blaðið Dagens Nyheter hefur verið að gera upp íþróttaárið í sérstöku jóladagatali þar sem menn þar á bæ taka fyrir 24 eftirminnilegustu íþróttafréttir ársins.

Afrek Svíans Lars Lagerbäck á Laugardalsvellinum 6. september síðastliðinn kemst á blað sem eitt af 24 stærstu íþróttafréttum ársins í Svíþjóð. Svíarnir tala þar um kraftaverk Lagerbäck.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta tryggði sér þá sæti í úrslitakeppni stórmóts í fyrsta sinn í sögunni. Hollendingar töpuðu 3-0 á móti Tyrkjum fyrr um daginn og þess vegna nægði íslenska liðinu jafntefli á móti Kasakstan.

Markalausu jafntefli var því fagnað gríðarlega af leikmönnum jafnt sem áhorfendum þetta fallega sunnudagskvöld í september. Sænska þjóðin fylgdist líka vel með en íslenska landsliðið var langt á undan því sænska að tryggja sér EM-sætið. Svíar komust loksins sjálfir eftir sigur í umspilsleikjum á móti Dönum tveimur mánuðum síðar.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við komust á stórmót og menn þurfa alltaf að læra að spila á slíkum mótum en ég tel að við getum komið á óvart og unnið einhver lið á EM. Þetta lið er eitt það best skipulagðasta í dag og þessa vegna eigum við möguleika á sigri á móti bestu liðum heims. Við eigum kannski ekki mikla möguleika en möguleika engu að síður," sagði Lars Lagerbäck í viðtali við Aftonbladet eftir að EM-sætið var í höfn.

Blaðamaður Dagens Nyheter rifjar það upp að íslenska landsliðið var í 131. sæti á FIFA-listanum þegar Lagerbäck tók við liðinu.

Í dag er íslenska landsliðið í 36. sæti á heimslistanum og þetta hefur því verið mikil ævintýraferð á þessum fjórum árum og allt annað en sjálfgefið að 323 þúsund manna þjóð geti náð svo langt í vinsælustu íþrótt heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×