Fótbolti

Strákarnir mæta vel klæddir til leiks á EM í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, afhenti Vilhjálmi Svan Vilhjálmssyni, verslunarstjóra Herragarðsins í Kringlunni, landsliðstreyju í tilefni af samningnum..
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, afhenti Vilhjálmi Svan Vilhjálmssyni, verslunarstjóra Herragarðsins í Kringlunni, landsliðstreyju í tilefni af samningnum.. Mynd/Heimasíða KSÍ
Knattspyrnusamband Íslands hefur gert samning við Herragarðinn um að fataverslunin klæði A-landsliði karla í fótbolta á EM 2016 í Frakklandi.

Samkvæmt samkomulaginu mun Herragarðurinn útvega leikmönnum og starfsmönnum A-landsliðs karla jakkaföt sem þeir sem munu klæðast fyrir leiki í keppninni og við sérstök tækifæri. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu KSÍ.

Samningurinn er til tveggja ára það er út árið 2017 og hann er jafnframt með möguleika á framlengingu.

„Það er að mörgu að hyggja í undirbúningi fyrir keppnina og samkomulagið við Herragarðinn um klæðnað liðsins er hluti af þeim undirbúningi. Við vitum að við erum í traustum höndum hjá Herragarðinum og klæðnaðurinn fyrsta flokks," segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í frétt á heimasíðu sambandsins í dag.

„Um er að ræða sérsaumuð jakkaföt undir merkjum Herragarðsins, sem er ný viðbót í okkar þjónustu, auk þess sem leikmenn fá skyrtu og bindi sem passa við," sagði Hákon Hákonarson, eigandi Herragarðsins.

Íslenska landsliðið spilar sinn fyrsta leik á mótinu á móti Portúgal 14. júní og fer sá leikur fram í Saint-Étienne. Ísland og Portúgal verða tvö síðustu landsliðin sem hefja leik á mótinu en þegar flautað verður til leiks þá hafa öll hin 22 liðin spilað sinn fyrsta leik á mótinu.

Ísland mætir einnig Ungverjalandi og Austurríki í riðlakeppni mótsins og fara þeir leikir fram 18. og 22. Júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×