Erlent

Frakkland: Hafa komið í veg fyrir tíu hryðjuverkaárásir á árinu

Atli Ísleifsson skrifar
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands.
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands. Vísir/AFP
Lögregla í Frakklandi segist hafa komið í veg fyrir að hryðjuverkaárás var gerð gegn lögreglu- og hermönnum nærri borginni Orleans.

Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, greindi frá því í dag að tveir menn – annar tvítugur og hinn 24 ára – hafi verið handteknir á laugardag vegna gruns um að skipuleggja hryðjuverkaárásir í landinu.

Mennirnir eru taldir hafa verið í samskiptum við franskan ríkisborgara sem dvelur nú í Sýrlandi.

Cazeneuve sagði að annar hinna handteknu hafi þegar játað að hafa ætlað sér að fremja hryðjuverk. Annar mannanna er sagður vera af marokkóskum uppruna, en hinn frá Tógó.

Cazeneuve sagði að frönsk lögregla hafi komið í veg fyrir tíu hryðjuverkaárásir í landinu það sem af er ári. Þar að auki hafi lögregla meinað rúmlega 3.400 manns að halda inn í Frakkland eftir að neyðarástandi var komið á í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París um miðjan síðasta mánuð þar sem 130 manns fórust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×