Fótbolti

Formaður Midtjylland: Við erum litlir en getum unnið Man. United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir í Midtjylland fagna sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Strákarnir í Midtjylland fagna sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. vísir/getty
Danmerkurmeistarar Midtjylland drógust gegn Manchester United í 32 liða úrslitum EVrópudeildarinnar og mætast liðin heima og að heiman þegar keppnin heldur áfram í febrúar.

Midtjylland hefur staðið sig stórkostlega í Evrópudeildinni á þessu tímabili, en í forkeppninni skellti það enska liðinu Southampton.

Í riðlakeppninni náði liðið svo öðru sæti í D-riðli og var þar á undan stórliðum frá Belgíu og Póllandi; Club Brugge og Legíu Varsjá.

Rasmus Ankersen, stjórnarformaður Midtjylland, þekkir vel til á Englandi eftir að sinna sama starfi hjá Brentford. Hann leyfir sér að vera bjartsýnn fyrir leikina en er þó mjög raunsær.

„Við erum lítið lið með lítið fjármagn. Við getum ekki unnið lið með því að eyða meira þannig við þurfum að úthugsa mótherja okkar og það höfum við gert vel í Evrópudeildinni hingað til,“ segir Ankersen í viðtali við BT Sport.

Manchester United er í miklu basli þessa dagana en liðið er án sigurs í síðustu fimm leikjum og tapaði gegn nýliðum Bournemouth í úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

„Það er ekki mikill séns að við vinnum Manchester United en það er hægt og við erum tilbúnir í baráttuna. Við erum búnir að vinna annað enskt lið nú þegar í keppninni þannig við erum klárir í slaginn,“ segir Rasmus Ankersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×