Erlent

Fjármálaráðherrar öryggisráðsríkja SÞ samþykkja áætlun gegn ISIS

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Liðsmaður ISIS veifar fána samtakanna.
Liðsmaður ISIS veifar fána samtakanna. vísir/getty
Fjármálaráðherrar ríkjanna fimmtán sem mynda öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna hafa sammælst um áætlun til að knésetja ISIS. Stefnt er að því að þjóðirnar komi í veg fyrir að fjármunir nái að komast til samtakanna. Frá þessu er greint á vef BBC.

Áætlunin er áþekk þeirri sem gripið var til árið 1999 og stefndi að því marki að fjársvelta al-Qaeda. Meðal þess sem á að gera er að koma í veg fyrir smygl á olíu og fornminjum frá samtökunum. Þeir hópar sem styðja við bak samtakanna með einhverjum hætti geta síðan búist við því að eignir þeirra verði frystar.

Áþekk ályktun var samþykkt á vettvangi öryggisráðsins í febrúar en hún virðist ekki hafa virkað sem skyldi. Stafar það af því að henni hefur í reynd lítið verið fylgt. 

Skæruliðahreyfingin ISIS er af mörgum talin sú allra auðugsta í heiminum en áætlað er að tekjur þeirra á mánuði nemi áttatíu milljónum dollara eða tæplega 10,5 milljörðum íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×