Fótbolti

Klopp hefur ekki áhyggjur af gengi Liverpool á Anfield

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Liverpool mætir í kvöld Bordeaux á heimavelli sínum í Bítlaborginni en gengi liðsins framan af hausti hefur ekki verið frábært.

Liverpool hefur unnið aðeins þrjá leiki sína af tíu á Anfield í haust og aðeins einn eftir að Jürgen Klopp tók við um miðjan síðasta mánuð.

Lærsveinar Klopp komast áfram í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar með annað hvort sigri eða markalausu jafntefli í kvöld. Liverpool hefur aðeins skorað sex mörk í sex deildarleikjum á Anfield og ekki enn náð að vinna á heimavelli í Evrópudeildinni.

Jürgen Klopp hefur þó ekki áhyggjur af þessu og telur að gengi liða á heimavelli sé ekki það sem ræður mestu í fótbolta.

„Fyrst og fremst verðum við að þróa okkar leik og það er það sem við höfum gert síðustu vikurnar,“ sagði Klopp. „Maður verður að tala um slæmu hlutina, góðu hlutina og halda áfram að gera það sem við gerum vel.“

„Flest mörk sem við höfum fengið á okkur hafa komið eftir föst leikatriði. Það er ekki auðvelt að skapa færi gegn okkur og við þurfum að halda stöðugleika hvað það varðar.“

Síðan að Klopp tók við Liverpool hefur liðið spilað átta leiki á 40 dögum. Leikjálag hefur sitt að segja, telur Klopp. „Stundum verður maður að líða fyrir það og ég held að við getum skrifað tapið gegn Crystal Palace [í síðasta deildarleik Liverpool á Anfield] á það fremur en eitthvað annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×