Fótbolti

Lewandowski hefur skorað 9 mörk í síðustu 5 landsleikjum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski.
Robert Lewandowski. Vísir/Getty
Íslensku varnarmennirnir fá verðugt verkefni í kvöld við það að reyna að stoppa Robert Lewandowski, stærstu knattspyrnustjörnu Pólverja í dag.

Ísland mætir þá Póllandi í vináttulandsleik á Narodowy-leikvanginum í Varsjá en báðar þjóðir eru að hefja þessum leik undirbúning sinn fyrir Evrópumótið í Frakklandi næsta sumar.

Robert Lewandowski hefur bæði raðað inn mörkum hjá þýska liðinu Bayern München og með pólska landsliðinu. Lewandowski hefur þegar skorað 19 mörk í 18 leikjum í öllum keppnum með Bayern München á þessu tímabili.

Lewandowski var síðan markahæsti leikmaður undankeppninnar með þrettán mörk eða fjórum mörkum meira en næsti maður sem var Þjóðverjinn Thomas Müller.

Lewandowski hefur skorað í síðustu fimm landsleikjum sínum þar af er ein þrenna og tvær tvennur. Hann hefur skorað alls níu mörk í þessum fimm landsleikjum.

Lewandowski hefur einnig fundið sig vel á Narodowy-leikvanginum en hann hefur skorað sex mörk í síðustu þremur leikjum sínum á þeim velli en þrír af fyrrnefndum leikjum hafa farið fram á þjóðarleikvanginum í Varsjá.

Annar leikmaður sem hefur fundið sig vel í síðustu landsleikjum sínum á Narodowy-leikvanginum er Arkadiusz Milik, fyrrum liðsfélagið Kolbeins Sigþórssonar hjá Ajax. Milik hefur skorað fimm mörk í síðustu fimm landsleikjum sínum á vellinum.

Síðustu fimm leikir Robert Lewandowski með pólska landsliðinu:

4-0 sigur á Georgíu, 13. júní 2015: 3 mörk

1-3 tap fyrir Þýskalandi, 4. september 2015: 1 mark

8-1 sigur á Gíbraltar, 7. september 2015: 2 mörk

2-2 jafntefli við Skotland, 8. október 2015: 2 mörk

2-1 sigur á Írlandi, 11. október 2015: 1 mark




Fleiri fréttir

Sjá meira


×