Erlent

Fjölmargar aðgerðir lögreglu í Frakklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan í Frakklandi réðst til atlögu gegn öfgahópum á 150 stöðum víðsvegar um landið í nótt.
Lögreglan í Frakklandi réðst til atlögu gegn öfgahópum á 150 stöðum víðsvegar um landið í nótt. Vísir/AFP
Lögreglan í Frakklandi réðst til atlögu gegn öfgahópum á 150 stöðum víðsvegar um landið í nótt. Aðgerðirnar beindust gegn grunuðum íslamistum. Þetta sagði Manuel Valls, forsætisráðherra, í útvarpi nú í morgun. Hann varaði við frekari hryðjuverkaárásum á næstu dögum og vikum.

Hann sagði einnig að lögregla og leyniþjónusta Frakklands hefði komið í veg fyrir nokkrar árásir frá því í sumar og að þeir hefðu vitað til þess að verið væri að skipuleggja árásir í Frakklandi og annarsstaðar í Evrópu.

Salah Abdeslam, er grunaður um aðild að hryðjuverkunum í París á föstudagskvöld.Vísir/AFP
Þá leitar franska lögreglan enn að Salah Abdeslam, en hann er grunaður um aðild að hryðjuverkunum í París á föstudagskvöld þar sem rúmlega 130 létust og mörg hundruð særðust. Í nótt voru gerðar húsleitir í borgunum Toulouse, Grenoble, Jeumont og í úthverfi Parísar, Bobigny. Margir munu hafa verið handteknir og fregnir herma að vopn hafi fundist í húsleitinni í Toulouse.

AFP fréttaveitan segir frá því að lögreglan hafi lagt hald á „vopnabúr“ í Lyon. Þar fundust eldflaug, sjálfvirkir árásarrifflar, skotheld vesti, skammbyssur og fleira.

Abdeslam er sagður einn þriggja bræðra sem allir eiga að hafa tekið þátt í ódæðisverkunum. Hann mun hafa verið stöðvaður af lögreglu skammt frá landamærunum að Belgíu ásamt tveimur öðrum, aðeins örfáum klukkustundum eftir árásina, en honum var sleppt eftir að hann sýndi skilríki.


Tengdar fréttir

Frakkar ráðast á höfuðvígi Íslamska ríkisins

Bandaríska alríkislögreglan mun aðstoða við rannsókn á hryðjuverkunum í París. Minnst 132 féllu og 350 særðust þegar vígamenn Íslamska ríkisins réðust á borgina á föstudagskvöld. Mannskæðasta árás í Evrópu síðan í Madríd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×