Körfubolti

Söngurinn úr stúkunni í Berlín fékk Jón Arnór til að hætta við að hætta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/EPA
Íslenska körfuboltalandsliðið fær mikla og flotta umfjöllun á heimasíðu FIBA Europe en þar er verið að fjalla um framgöngu íslenska liðsins og íslensku stuðningsmannanna á Eurobasket í Berlín í september.

Dimitris Kontos skrifar greinina fyrir FIBA Europe og byggir hana upp í kringum viðtal við Jón Arnór Stefánsson.

Kontos segir meðal annars frá ógleymanlegum söng íslenska stuðningsfólksins sem söng  „Ég er kominn heim" fyrir íslensku landsliðsstrákanna eftir lokaleikinn á móti Tyrkjum. Stund sem enginn Íslendingur sem var í Berlín mun gleyma í bráð.

Kontos líkir laginu við Liverpool-lagið „You'll Never Walk Alone" en Jón Arnór sagði honum aðeins frá textanum.  Fyrirsögnin „Icelandic Basketball Will Never Walk Alone Again“ eða „Íslenskur körfubolti mun aldrei ganga einsamall aftur“ er bein vísun í það.

„Þetta er sjómannalag og um það að koma heima. Við erum eftir allt saman sjómannaþjóð," sagði Jón Arnór.

„Þetta mót var alls ekki eins og ég bjóst við. Þetta var stórkostleg reynsla fyrir mig, fyrir liðsfélagana mína, fyrir stuðningsfólkið, fyrir sambandið og fyrir alla. Þetta var bara svo fallegt," sagði Jón Arnór.

Jón Arnór viðurkennir að það hafi tekið hann nokkurn tíma að komast aftur niður á jörðina eftir Evrópumótið.

Jón Arnór talar líka um það í viðtalinu að hann hafi nánast verið búinn að ákveða það að setja landsliðsskóna upp á hillu eftir Evrópumótið en það hafi breyst í Berlín. Söngurinn eftir lokaleikinn og öll upplifun hafi hinsvegar séð til þess að hann vill spila áfram með landsliðinu.

„Ég var að hugsa um að hætta að spila með landsliðinu. Eftir Eurobasket þá vil ég aftur á móti fá tækifæri til að upplifa þetta aftur ef líkaminn leyfir," sagði Jón Arnór.

„Það er mikilvægt fyrir sambandið og fyrir stuðningsfólkið að hætta ekki núna. Það er mikilvægt að vera ekki södd og sátt eftir Berlín. Við ætlum að er reyna að fá að upplifa þetta allt aftur eftir tvö ár," sagði Jón Arnór.

Það er hægt að sjá alla greina um íslenska landsliðið með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×