Erlent

Rússar skutu eldflaugum á Sýrland

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar hafa áður skotið langdrægum eldflaugum að Sýrlandi.
Rússar hafa áður skotið langdrægum eldflaugum að Sýrlandi. Vísir/EPA
Rússar hafa gert fjölda árása í Sýrlandi í dag sem beinast gegn Íslamska ríkinu. Flugskeytum var skotið úr lofti sem og af skipum frá Miðjarðarhafinu. Bandaríkin segja Rússa hafa látið sig vita af árásunum áður en þær voru gerðar, en Rússland og Bandaríkin hafa ekki samræmt aðgerðir sínar í dag.

Hér má sjá yfirlit yfir árásir ISIS á heimsvísu.Vísir/GraphicNews
Vladimir Putin, forseti Rússlands, hefur heitið hefndum gegn þeim sem grönduðu rússneskri farþegaflugvél yfir Sinaiskaga í Egyptalandi og hefur Íslamska ríkið sagst hafa sprengt upp vélina. Meðal annars beindust árásir Rússa gegn Raqqa, höfuðvígi ISIS í Sýrlandi.

Frakkar hafa einnig gert árásir gegn Raqqa í dag og í gær eftir árásirnar í París á föstudaginn. Francois Hollande, forseti Frakklands, mun ferðast til Bandaríkjanna og ræða við Barack Obama þann 24. nóvember næstkomandi. Tveimur dögum seinna mun hann ræða við Vladimir Putin. Tilgangur fundanna er að leiðtogarnir ræði hvernig herða bæta megi baráttuna gegn ISIS.

Rússar segjast hafa skotið meira en 30 langdrægum flugskeytum frá Miðjarðarhafinu og að langdrægar sprengjuvélar hafi einnig gert árásir. Yfirvöld í Rússlandi segja að þeir muni samræma aðgerðir sínar með Frökkum.

Hér að neðan má sjá myndband sem varnarmálaráðuneyti Rússlands birti fyrir skömmu. Þar eru langdrægar sprengjuflugvélar Rússa sýndar gera loftárásir á Sýrland í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×