Fótbolti

Klopp með sitt besta lið til Rússlands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Klopp fagnar sigri Liverpool á Chelsea um helgina.
Klopp fagnar sigri Liverpool á Chelsea um helgina. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar með sinn sterkasta hóp til Rússlands þar sem liðið mætir Rubin Kazan í Evrópudeild UEFA á morgun.

Aðeins leikmenn sem eru að glíma við meiðsli fara ekki með en leikmenn eins og Christian Benteke, Roberto Firmino og Philippe Coutinho eru allir með í för. Daniel Sturridge er enn að glíma við hnémeiðsli og varð eftir heima.

Klopp hefur áður sagt að hann líti ekki á Evrópudeildina sem hliðarverkefni og leggur áherslu á að félagið nái langt í keppninni í ár. Liverpool tekur svo á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

Samkvæmt frétt The Telegraph mun Klopp hafa verið áhugasamur um að taka ungstirnið Joao Teixeira með en hann var ekki valinn í UEFA-hóp Liverpool þegar tímabilið hófst í haust og er því ekki gjaldgengur.

Liverpool hefur gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í Evrópudeildinni til þessa og er í öðru sæti B-riðils, fjórum stigum á eftir toppliði Sion. Liverpool hefur þó unnið síðustu tvo leiki sína undir stjórn Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×