Fótbolti

Dembélé tryggði Tottenham sigur og efsta sætið í riðlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Moussa Dembélé fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Moussa Dembélé fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Belginn Moussa Dembélé tryggði Tottenham 2-1 sigur á löndum hans í Anderlecht á White Hart Lane í kvöld þegar liðin mættust í fjórðu umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Moussa Dembélé skoraði sigurmarkið með þrumuskoti aðeins þremur mínútum fyrir leikslok.

Tottenham hefur nú sjö stig eftir fjóra leiki en liðið er með stigi meira en AS Mónakó og þremur stigum meira en liðin í 3. og 4. sæti sem eru Qarabag og Anderlecht.

Tottenham var miklu sterkara í fyrri hálfleiknum en Belgarnir bitu meira frá sér í þeim síðari. Það var hinsvegar enska liðið sem náði að tryggja sér öll þrjú stigin í lokin.

Harry Kane kom Tottenham í 1-0 á 29. mínútu eftir flottan undirbúning Danans Christian Eriksen og þannig var staðan í hálfleik.

Imoh Ezekiel jafnaði metin fyrir Anderlecht á 72. mínútu leiksins en hann hafði komið inn á sem varamaður þremur mínútum áður.

Pochettino sendi Moussa Dembélé inná völlinn strax eftir jöfnunarmarkið og sú skipting bar árangur í lokin.

Heung-Min Son lagði þá boltann lagleg út á Moussa Dembélé og þrumuskot hans þandi netmöskvana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×