Sport

Gaf ungum stuðningsmanni gull verðlaunapeninginn | Myndband

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sonny Bill Williams afhendir hér stuðningsmanninum verðlaunapeninginn.
Sonny Bill Williams afhendir hér stuðningsmanninum verðlaunapeninginn. Vísir/getty
Sonny Bill Williams, leikmaður All-blacks, rúbbíliðs Nýja-Sjálands, fann til með ungum stuðningsmanni liðsins sem var tæklaður af öryggisverði þegar hann hljóp inn á völlinn til að hitta hetjurnar sínar eftir úrslitaleik heimsmeistaramótsins í rúbbí á dögunum.

Ungur stuðningsmaður liðsins hljóp inn á völlinn stuttu eftir 34-17 sigur Nýja-Sjálands gegn Ástralíu á dögunum í úrslitum HM en öryggisvörður á vellinum var fljótur að tækla hann og ætlaði að draga hann af velli þegar Bill Williams stöðvaði öryggisvörðinn.

Þess í stað labbaði hann með stuðningsmanninum af velli, heilsaði foreldrum hans og gaf honum gullmedalíuna sína til minningar en þetta var í annað sinn sem hann var hluti af sigurliði Nýja-Sjálands á HM í rúbbí.

Bill Williams fékk aðra medalíu á verðlaunaafhendingu um kvöldið en þegar hann var spurður að því afhverju hann gerði þetta var hann ekki lengi að svara.

„Ég hefði brjálast ef þetta hefði verið ættingi minn sem öryggisvörðurinn tók niður. Ég ákvað að aðstoða hann og fara með hann til foreldra hans og gefa honum verðlaunapeninginn minn. Þetta verður eftirminnilegra fyrir hann en fyrir mig. Hann getur sagt þessa sögu næstu áratugina og vonandi verður hann hluti af liðinu einn daginn.“

Myndband af þessu má sjá hér fyrir neðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×