Fótbolti

Guardiola: Við töpuðum ekki út af Manuel Neuer

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsenal kom sér aftur í baráttuna í Meistaradeildinni í gærkvöldi þegar liðið vann frækinn sigur á Þýskalandsmeisturum Bayern München, 2-0, á Emirates-vellinum í Lundúnum.

Þetta var fyrsta tap Bayern á leiktíðinni, en liðið varð um helgina fyrsta liðið til að vinna níu fyrstu leikina í þýsku 1. deildinni og þá var liðið búið að vinna tvo fyrstu leiki sína í Meistaradeildinni.

Arsenal varðist vel í gærkvöldi og tók forystuna á 77. mínútu þegar varamaðurinn Oliver Giroud kom boltanum í netið eftir aukaspyrnu utan af velli.

Manuel Neuer, markvörður Bayern, sem átti mögulega markvörslu ársins í fyrri hálfleik, gerði sig þá sekan um stór mistök.

Markvarslan magnaða hjá Neuer:


Þessi magnaði markvörður, sem af flestum er talinn sá besti í heimi, fór í skógarhlaup og hitti ekki boltann sem varð til þess að Giroud gat skorað í autt netið. Markið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Pep Guardiola, þjálfari Bayern, kom sínum manni til varnar á blaðamannafundi eftir leikinn, en honum datt ekki í hug að kenna Neuer um tapið.

„Aldrei í lífinu hef ég gagnrýnt leikmann fyrir að taka ávarðarnir hvort sem þær eru réttar eða rangar. Við töpuðum ekki út af Manuel Neuer. Þetta er fótbolti og hann tók ákvörðun í þessu atviki. Þannig er það,“ sagði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×