Fótbolti

Hólmar Örn: Klose er átrúnaðargoðið mitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. Vísir/Valli
Hólmar Örn Eyjólfsson er spenntur fyrir leik Rosenborg og Lazio í Evrópudeildinni annað kvöld. Hólmar Örn var í viðtali hjá norska blaðinu Adresseavisen.

Þýski framherjinn Miroslav Klose spilar með Lazio en enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk fyrir þýska landsliðið eða í úrslitakeppni HM.

Hólmar Örn viðurkennir það fúslega að hann haldi mikið upp á Klose og hafi gert það lengi. „Ég hef beðið lengi eftir þessum leik," sagði Hólmar Örn í viðtalinu í Adresseavisen.

„Við vitum að Lazio er með gott lið og þetta er mikilvægt próf fyrir okkur að mæta einu af stærstu liðunum í keppninni," sagði Hólmar Örn en leikurinn  fer fram á Ólympíuleikvanginum í Róm.

„Ég elska það að mæta íþróttamönnum á hæsta stigi því það er flott tækifæri fyrir mig að sjá hvar ég stend. Ég ætla að njóta hverrar mínútu á móti Klose ef hann spilar í þessum leik," sagði Hólmar örn.

„Ég hef í mörg ár horft á hann spila með þýska landsliðinu og hann hefur verið átrúnaðargoðið mitt síðan að ég var tíu ára," sagði Hólmar Örn.

Hólmar Örn var tíu ára gamall árið 2000 en þá lék faðir hans Eyjólfur Sverrisson með Hertha Berlín í Þýskalandi.

Rosenborg hefur náð í 1 stig út úr tveimur fyrstu leikjum sínum en það kom í 2-2 jafntefli á útivelli á móti franska liðinu Saint-Étienne. Rosenborg tapaði 1-0 á heimavelli í síðasta leik sínum sem var á móti úkraínska liðinu Dnipro Dnipropetrovsk.

Lazio hefur 4 stig og er í efsta sæti riðilsins. Miroslav Klose sem er orðinn 37 ára gamall hefur verið meiddur í upphafi tímabilsins og á enn eftir að spila í Evrópudeildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×