Fótbolti

Draumabyrjun Tottenham dugði skammt í Belgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefano Okaka fagnar hér sigurmarki sínu.
Stefano Okaka fagnar hér sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Tottenham tapaði sínum fyrsta leik í Evrópudeildinni á tímabilinu þegar liðið sótti belgíska liðið Anderlecht heim í kvöld.

Anderlecht vann leikinn 2-1 þar sem sigurmarkið kom fimmtán mínútum fyrir leikslok. Tottenham komst yfir í byrjun leiksins og fékk færi til að bæta við mörkum en það voru Belgarnir sem nýttu færin sín.

Tottenham fékk draumabyrjun þegar Christian Eriksen nýtti sér klaufagang í vörn Belganna og kom Tottenham í 1-0 strax á fjórðu mínútu.

Erik Lamela fékk mjög gott færi til að koma Tottenham í 2-0 sjö mínútum síðar eftir sendingu Christian Eriksen en Silvio Proto varði vel frá honum.

Anderlecht jafnaði hinsvegar metin á 13. mínútu þegar bakvörðurinn Guillaume Gillet fékk nægan tíman til að leggja boltann fyrir sig eftir hornspyrnu og afgreiða hann glæsilega í markið.

Hugo Lloris, markvörður Tottenham, varði vel frá Stefano Okaka á 28. mínútu og kom í veg fyrir að heimamenn í Anderlecht kæmust yfir í leiknum.

Tottenham var samt betra liðið í hálfleiknum en leikurinn róaðist mikið eftir mörkin tvö á fyrstu þrettán mínútunum.

Harry Kane kom inná sem varamaður og fékk fyrsta færi Tottenham í seinni hálfleiknum en Silvio Proto varði vel frá honum. Það voru síðan leikmenn Anderlecht sem skoruðu.

Stefano Okaka skoraði markið á 75. mínútu eftir laglegan undirbúning varamannsins Frank Acheampong. Anderlecht-menn fögnuðu vel og enn meira þegar lokaflautið gall.

Tottenham hefur nú 4 stig eftir þrjá leiki og er í 3. sæti riðilsins með jafnmörg stig og Anderlecht en verri innbyrðisárangur. Mónakó vann 1-0 sigur á Qarabag í hinum leik riðilsins og er eftir það með eins stigs forskot á toppi riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×