Skoðun

Verðtrygginguna burt

Helga Þórðardóttir skrifar

Völd fjármálakerfisins eru allsráðandi í lífi okkar. Bankarnir hafa hagnast um rúma fjögur hundruð milljarða frá hruni. Samtímis eru til einstaklingar í þjóðfélagi okkar sem þurfa að velja á milli lyfja og matar. Alþingi Íslendinga horfir á án inngripa og samþykkir því glæpinn. Alþingi er stjórnað af sérhagsmunaaðilum og fátækir Íslendingar teljast ekki til þeirra. Þeir hvorki þrýsta né setja úrslitakosti eða múta.



Verðtryggingin hefur verið nefnd „vítisvél andskotans“ og eiga erlendir bankastarfsmenn oft erfitt með að skilja hana. Hvernig getur bara annar aðilinn alltaf grætt spyrja þeir. Þeir eru vanir vissum ófyrirsjáanleika í störfum sínum sem íslenska bankakerfið hefur ekki haft manndóm í sér til að takast á við.



Lánardrottnar á Íslandi, bankar og lífeyrissjóðir ætla sér að halda í verðtrygginguna hvað sem það kostar. Þeir græða á henni og hún veitir þeim yfirburðastöðu. Lánardrottinn á Íslandi sem veitir verðtryggt lán getur ekki tapað, bara lántakandinn meðan hann stendur í skilum. Sá fyrirsjáanleiki er ekki til staðar hjá erlendum lánastofnunum. Þannig sogar verðtryggingin sjálfvirkt fjármuni dag og nótt frá almenningi til lánardrottna, alla daga ársins. Síðan fá bankamenn bónusa fyrir snilldina. Til að bæta gráu ofan á svart þá veldur verðtryggingin verðbólgu og hver græðir á því?



Þessu verður að breyta, það er réttlætismál. Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, ætlar að breyta þessu. Samkvæmt skoðanakönnun Hagsmunasamtaka heimilanna vilja 80% landsmanna afnema verðtrygginguna. Fimmflokkurinn hefur marglofað að afnema verðtrygginguna en hefur aldrei staðið við það og mun ekki gera það. Þess vegna er sterkasta vonin að styðja Dögun til áhrifa sem mun afnema verðtrygginguna, hvað sem tautar og raular.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×