Innlent

Páfi sendi hringborði Norðurslóða kveðju

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frans páfi
Frans páfi vísir/epa

Utanríkisráðherra Páfagarðs, Parolin kardínáli, sendi í lok vikunnar forseta Íslands Ólafi Ragnari Grímssyni bréf með árnaðaróskum frá hans heilagleika Frans páfa til Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.



Í bréfinu er ítarlega fjallað um mikilvægi Norðurslóða fyrir lífríki jarðarinnar og framtíð mannkyns og áréttuð nauðsyn á víðtækri alþjóðlegri samvinnu á þessu sviði. Mikilvægt væri að hún byggði á vísindalegri þekkingu og hefði ávallt umhverfisvernd og heill íbúa norðursins að leiðarljósi.



Í niðurlagi bréfsins til forseta Íslands segir meðal annars að andrúmsloftið sé sameign alls mannkyns og ef núverandi breytingar haldi áfram þá verði á þessari öld risavaxin umskipti á loftslaginu ásamt tortímingu vistkerfa með alvarlegum afleiðingum fyrir alla íbúa jarðar. Þótt maðurinn valdi oft skaða geti hann líka látið gott af sér leiða og hafið nýja vegferð. Þing Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle skapi mikilvæg tækifæri til að efla samstöðu um breytingar á neysluháttum, framleiðslu og lífsstíl.



Auk árnaðaróska frá hans heilagleika Frans páfa áréttar Páfagarður aukið gildi Hringborðsins í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París í desember, COP21.


Tengdar fréttir

Vilja tappa af ferðamannastrauminum til Íslands

Næstu nágrannar Íslands á norðurhveli, Grænlendingar, sjá mikil tækifæri í frekari opnun norðurslóða. Utanríkis- og iðnaðarráðherra Grænlands hélt erindi á Arctic Circle ráðstefnunni í dag um framtíð Grænlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×