Fótbolti

Wolfsburg gæti lent í fjárhagsvandræðum vegna skandalsins hjá Volkswagen

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Volkswagen styður Volkswagen.
Volkswagen styður Volkswagen.
Framtíð þýska 1. deildar liðsins WfL Wolfsburg gæti verið fjárhagslegu uppnámi vegna skandalsins hjá bílaframleiðandanum Volkswagen.

Volkswagen er í vondum málum vegna stórfellds svindls sem lesa má meira um hér. Volkswagen á Wolfsburg, en félagið var stofnað fyrir starfsmenn Volkswagen árið 1945.

Bílaframleiðandinn hefur látið mikið fé í Wolfsburg sem hjálpaði liðinu að verða þýskur meistari árið 2009 og bikarmeistari í ár. Það hefur keypt stóra leikmenn á borð við Kevin de Bruyne og André Schürrle fyrir tæplega 50 milljónir punda undanfarin misseri.

Volkswagen gæti þurft að greiða allt að tólf milljarða punda í skaðabætur vegna skandalsinn, en íþróttamarkaðsfræðingurinn Simon Chadwick, prófessor við háskólann í Coventry, telur að þetta gæti haft bein áhrif á Wolfsburg og fleiri félög í Þýskalandi.

„Þegar fyrirtæki tapa svona miklum pening á einu bretti verður leitað að leiðum til að spara,“ segir Chadwick við BBC, en þá liggur beinast við að minnka við styrktarkostnað.

„Hversu mikið högg þetta verður fyrir fyrirtækið á eftir að koma í ljós. Tíminn mun leiða í ljós hvort Volkswagen geti haldið áfram að styðja við félögin eða hvort við sjáum beinar afleiðingar af þessum skandal á næstu leiktíðum,“ segir Luke Chadwick.

Wolfsburg er ekki eina félagið sem gæti lent í vandræðum.

„Volkswagen styrkir 18 af 36 liðum í efstu tveimur deildum þýska boltans. Við erum heldur ekkert bara að tala um Volkswagen heldur Volkswagen Group. Inn í því er Audi sem styrkir líka mikið af íþróttafélögum. Við megum ekki draga úr þeim áhrifum sem þetta gæti haft á íþróttirnar,“ segir Luke Chadwick.

Wolfsburg komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð og mætir Manchester United annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×